GÍTAR

Þórður Árnason

Þórður Árnason hefur leikið á gítar frá unga aldri og síðastliðna fimm áratugi verið þar fremstur meðal jafningja.

Hann lærði upphaflega hjá Gunnari H. Jónssyni gítarkennara og árin 1976 – 1978 stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og svo 1984 – 1986 við Berklee College of Music í Boston. Hann hóf ungur að leika með hljómsveitum og vakti strax athygli fyrir góðan gítarleik, m.a. með hljómsveitunum Rifsberja og Brunaliðinu, en þekktastur er hann þó fyrir leik sinn með Stuðmönnum, sem oftar en ekki er kölluð hljómsveit allra landsmanna. Hann var einn af stofnendum Hins íslenzka þursaflokks, sem með skemmtilegum og frumlegum útsetningum hóf sæmd íslenskra þjóðlaga til vegs og virðingar og gaf hljómsveitin út plötur sem koma til með að lifa með íslensku þjóðinni um ókomna tíð. Þórður hefur í gegn um árin verið afar eftirsóttur stúdíóspilari og hefur leikið inn á fjölmargar hljómplötur auk starfa bæði í sjónvarpi og leikhúsi. Hann hefur einnig starfað sem kennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla F.Í.H. og M.Í.T.